Key Findings 1

Einstök kjörlendi lífríkis norðurheimskautsins, þar á meðal hafís, freðmýrar, tjarnir og vötn sem myndast við bráðnun og sífreri mýrlendis, hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi.

Hafís heldur uppi gríðarmiklu lífi á norðurheimskautinu og er mikilvægt kjörlendi margra tegunda. Hafís hefur þó rýrnað hraðar en áður hafði verið áætlað, jafnvel í svartsýnustu framtíðarspám um loftslagsbreytingar, eins og þær sem gefnar voru af Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC). Meðal fyrstu hættumerkja um röskun á fæðuvef hafís er samdráttur í stofnstærð sumra tegunda sem tengjast hafís, eins og ísmáfa og hvítabjarna.

Ýmsar tegundir grasa, stara, mosa og skófna sem byggja upp plöntusamfélagið í vistkerfi freðmýra hopa nú víða fyrir tegundum sem eru dæmigerðari fyrir suðlægari slóðir, eins og sígrænum runnum. Tré eru byrjuð að seilast inn á freðmýrar og sumar spár áætla að árið 2100 muni skógarmörk hafa sótt fram norður á bóginn um allt að 500 km, sem myndi leiða af sér að 51% freðmýra tapast. . Með hliðsjón af umfangi breytinganna, má vera að vistkerfið sem tæki við gæti ekki lengur kallast „norðurheimskaut“. Afleiðingarnar gætu orðið þær að margar þeirra tegunda sem nú þrífast á norðurslóðum gætu ekki lengur lifað þar af í framtíðinni.

Stöðuvötn og tjarnir sem myndast við þiðnun íss eru líffræðilega fjölbreytilegustu ferskvatnsvistkerfi á norðurheimskautinu1. Þótt framræsla og myndun stöðuvatna sem verða til við bráðun íss sé tiltölulega algengt og náttúrulegt fyrirbrigði hafa rannsóknir sýnt að síðustu 50 til 60 árum hefur sums staðar orðið samdráttur á þessum stöðuvötnum á svæðum eins og hinum víðfeðmu sífrerasvæðum Norður-Alaska og Norðvestur-Kanada, og á hinu samfellda sífrerasvæði Síberíu. Á sama tíma hefur orðið hrein viðbót á hlánuðum stöðuvötnum á víðáttumikla sífrerasvæði Síberíu. Áhrif þessara tilfærslna á kjörlendum á staðbundna stofna plantna og dýra í ferskvatni, fartegundir og gróður eru viðfangsefni áframhaldandi rannsókna.

Í mómýrum á sífrerasvæðum er að finna einstakan vistfræðilegan fjölbreytileika. Þar er lykilkjörlendi sumra tegunda, það viðheldur stöðugleika í vatnabúskap og landslagi og hefur að geyma gríðarlegt magn lífrænna kolefna. Loftslagsbreytingar í samhengi við aðra áhrifavalda leiða nú til þess að umfang sífrera í mýrlendi á norðurslóðum hefur dregist saman og hve lengi hann helst styst. Bráðnun sífrera og hnignun mýrlendis losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið sem aftur leiðir af sér frekari loftslagsbreytingar.

1. Hér er átt við stöðuvötn og tjarnir sem myndast vegna þiðnunar sífrera.